Færsluflokkur: Bloggar
23.11.2010 | 17:19
Helstu áherslur mínar (2446)
Kæru kjósendur
Hér að neðan gefur að líta nokkur áhersluatriði sem ég hef tekið saman. Margt af þessu hefur nú þegar komið fram. Það má líta á þessi atriði sem svokallaða stefnuskrá en ég hef tekið þá ákvörðun að fara alls ekki of mótaður af þröngt skorðuðm stefnumálum í framboð mitt til Stjórnlagaþings. Þess vegna vil ég frekar kalla þetta áherslur til þess að kjósendur viti hvað og hvernig ég hugsa um stjórnarskrána.
Í stuttu máli, þá er ég ekki talsmaður mikilla umbreytinga og byltinga í stjórnarskrármálum Íslands. Ég vil helst af öllu gera hana skýrari, skilvirkari svo hún verði öllum, fullorðnum og börnum aðgengileg og auðskiljanleg. Það er fyrir öllu. Lagfæringar hér og þar eru nauðsynlegar til þess.
Atriðin koma hér að neðan en ég vil einnig benda á útvarpsviðtal við mig, sérstaklega fyrir þá sem finnst þægilegra að hlusta en lesa :-) Þar kemur líka fram margt af því sem ég set í áherslurnar hér að neðan.
Viðtalið er hér: http://podcast.ruv.is/stjornlagathing/2446.mp3
Helstu áherslur:
Stjórnskipunin skal vera þrískipt. Alþingi fer með löggjafarvald. Ríkisstjórn og forseti fer með framkvæmdavald og dómstólar fara með dómsvald.
Ísland skal vera fullvalda þingræðisríki. Núgildandi stjórnarskrá samsvarar sér að miklu leyti með forsetaræði, þessu þarf að breyta. Fullveldi er vandmeðfarið hugtak í stjórnarskráni vil ég þó tengja það við sjálfsákvarðanarétt. Almennt ákvæði þarf að vera til staðar sem varðar framsal á fullveldi ríkisins og hamlar því.
Mannréttindi, lýðræði og frelsi: Vernda skal réttindi borgaranna gegn ofbeldi ríkisvaldsins. Núgildandi mannréttindakafli er ágætur en alltaf má betur gera. Ísland ætti að fylgjast vel með þróun mannréttinda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og jafnframt að beita sér fyrir auknum mannréttindum á þeim vettvangi og hér heima. Ég vil leggja áherslu á þriðju kynslóðar mannréttindi, og aukna virkni fólks í stjórnmálum, aukið lýræði.
Dómstólar: Þeir skera úr um mál er varða réttindi og frelsi borgaranna. Þeir skulu vera sjálfstæðir, ópólitískt skipaðir og óháðir og skal það tryggt í stjórnarskrá.
Stjórnmál og stjórnsýsla eru sitthvor póllinn sem helst ekki má blanda saman. Tryggja þarf að starfsmenn stjórnsýslunnar séu ekki pólitískt ráðnir heldur sé þeir ráðnir á faglegan hátt og metnir að verðleikum, ekki eftir flokksskírteinum. Stjórnmálamenn móta stefnu en starfsfólk stjórnsýslunnar framfylgir henni. Pólitískar ráðningar í stjórnsýsluna þarf að afnema og ráða inn fólk sem hefur viðhlítandi menntun og reynslu í þau störf sem þar eru.
Lagaráð: Ópólitískt lagaráð sem samanstæði af lögfræðimenntuðu fólki sem hefði það hlutverk að yfirfara lagafrumvörp áður en þau fara til meðferðar Alþingis. Ráðið myndi gera athugasemdir og tillögur um endurbætur ef þess þyrfti. Þetta heldur Alþingi á tánum og skapar um leið vandaðri og skilvirkari löggjöf.
Ráðherraábyrgð: Skýrari ákvæði þarf að setja um ráðherraábyrgð en nú er.
Ráðherrar skulu ekki gegna þingmennsku samhliða ráðherradómi. Þeir skulu faglega ráðnir og starfa í umboði Alþingis en fyrst og fremst þjóðarinnar. Með þessu fæst vonandi skýrari stefnumótun og framtíðarsýn sem sárlega hefur vantað í íslensk stjórnmál síðustu áratugina. Einnig felur þessi breyting í sér stórbætta skiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds.
Forsetinn: Forsetinn er æðsti embættismaður framkvæmdavaldsins. Hann skal halda svipuðum völdum og hann hefur nú. 26. greinin um málskotsrétt er mikilvægt aðhaldstæki sem mér finnst að hann eigi að hafa áfram.
Kosningakerfi og kjördæmaskipan: Jafna skal atkvæðavægi og endurskoða kjördæmaskipan. Kosningakerfið sjálft má jafnframt endurskoða.
Gera þarf kjósendum og minnihluta Alþingis auðveldara fyrir að krefjast þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, með til dæmis ákveðnu lágmarkshlutfalli þjóðarinnar á undirskriftarlista. Þetta er þó vandmeðfarið og má ekki leiða til þess að hér sé þjóðaratkvæðagreiðsla í hverjum mánuði.
Skilgreina auðlindir og tryggja að nýting og arður af þeim verði íslensku þjóðfélagi til góða og skapi atvinnu.
Trúfrelsi skal ríkja á Íslandi. Afnema skal 62. grein stjórnarskrárinnar og leggja enn meiri áherslu á trúfrelsi á Íslandi. Öll trúarbrögð skulu standa jafnt frammi fyrir ríkisvaldinu. Þetta tengist mjög vel inn í mannréttindakaflann.
Endurskoðun stjórnarskrárinnar mætti verða að föstum viðburði í framtíðinni, með nokkurra ára millibili. Stjórnarskrárnefndir skipaðar alþingismönnum hafa verið starfandi á hverju löggjafarþingi í mörg ár. Ég er þó hlynntur því að ákveðið úrtak þjóðarinnar fái að sitja í þannig nefnd með reglulegu millibili í framtíðinni.
Lesandi góður, eftir þennan lestur ættir þú að átta þig á því hvar ég stend og hvað ég vil endurskoða í stjórnarskránni. Ég vona að þú komist á kjörstað og nýtir atkvæðisrétt þinn. Stjórnlagaþing er sérstakur viðburður í íslenskri sögu. Um leið og ég óska eftir stuðningi þínum hvet ég þig til þess að láta ekki þitt eftir liggja og greiða atkvæði.
Kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson
Frambjóðandi 2446
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2010 | 12:29
Stjórnsýsla vs. stjórnmál
Kæru lesendur
Stjórnsýslan og stjórnmálin þurfa að vera aðgreind á vissan hátt. Auðvitað þurfa þessi öfl að vinna mjög náið saman, en þó að vera sitthvort aðgreindur hluturinn. Stjórnmálin eru stefnumarkandi en stjórnsýslan er stefnu-framkvæmandi, framkvæmir vilja stjórnvalda hverju sinni. Jafn mikilvægt er að halda þessari tvískiptingu eins og að halda dómsvaldi aðgreindu frá löggjafar -og framkvæmdavaldi.
Eins og þessi tvískipting er mikilvæg er lítið sem ekkert um hana í núverandi stjórnarskrá Íslands. Ákvæði sem myndi skerpa á þessari tvískiptingu væri meira en velkomið af minni hálfu.
Hættan sem getur komið upp varðandi þessa tvískiptingu er hreinlega það sem getur kallast spilling. Hætta er á því að ráðnir séu inn í stjórnsýsluna pólitískir starfsmenn og upp getur þá komið misjafn vandi. Þeir njóta ekki trausts meðal samstarfsmanna sem ef til vill eru ekki pólitískir. Einnig getur komið upp sú staða að pólitískur starfsmaður stjórnsýslunnar vilji ekki, tefji eða breyti þeirri stefnu sem hann á að framkvæma samkvæmt vilja stjórnmálamanna, einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki sama flokksskírteinið og hann í vasanum. Starfsmenn stjórnsýslunnar eru oft pólitískt ráðnir af þeim flokkum sem eru í ríkisstjórn þá þegar. Svo hættir kannski sú ríkisstjórn en eftir sitja allir þeir flokkshollu starfsmenn innan stjórnsýslunnar sem fráfarandi ríkisstjórn réð til starfa. Í gegnum þá starfsmenn hefur þessi ríkisstjórn ákveðin völd.
Þess vegna kemur manni ekki á óvart að heyra að framsóknarmenn velli nánast út úr hverjum einasta kústaskáp ráðuneytanna sem opnaður er enn þann dag í dag síðan úr sterkri valdatíð flokksins.
Þekkt er auðvitað að starfsmenn stjórnsýslunnar séu pólitískt ráðnir og það kerfi sé viðurkennt, en það er í allt öðru stjórnskipunarfyrirkomulagi sem er t.d. forsetaræðið í USA. Þegar nýr forseti er kosinn þar, skiptir hann hreinlega út mest allri stjórnsýslunni fyrir þá er hafa stutt hann og hjálpað honum í kosningunum. Þeir fá starf í verðlaun. En við Íslendingar búum í þingræðisríki þar sem svona samtvinning stjórnmála og stjórnsýslu má ekki viðgangast og er hreinlega stórhættuleg.
Eiríkur Tómasson lagaprófessor við Háskóla Íslands tók svo sterklega til orða á dögunum að segja að pólitísk stjórnsýsla á Íslandi í gegnum árin hafi verið stór ástæða fyrir hruninu hér á landi haustið 2008.
Ef mögulegt er að setja ákvæði um þessa tvískiptingu í endurskoðaða stjórnarskrá Íslands mun ég svo sannarlega beita mér fyrir því. Þessi óljósa aðgreining var og hefur verið ekkert nema spilling. Því þarf að breyta.
Kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson
Auðkennistala mín í kosningum: 2446
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2010 | 01:34
Dómstólar
Sæll lesandi góður
Hér ætla ég aðeins að ræða skipulag dómstóla hér á landi. Núgildandi stjórnarskrá fjallar ekki mikið um dómstólana. 5. kafli hennar er um dómstólana og hann er einungis 3. greinar. Venjulegum lögum er því ætlað að útfæra þetta betur.
Dómstólar eru ein grein af þrem í þrískiptingu valdsins. Það sem er öðruvísi við dómstólana eru að þeir eru ekki pólitískir og mega heldur aldrei verða það. Dómstólar eiga að vera algjörlega óháðir öllu öðru og vinna eingöngu eftir laganna bókstaf. En bíddu aðeins við....hvað er rangt við þetta? Þetta er ekki svona í dag. Dómarar voru og hafa verið pólitískt skipaðir sem er svo siðferðislega rangt að engu lagi er líkt. Þarna er að finna mikinn kerfisgalla á stjórnarskránni og í lögunum. í 59. grein stjórnarskrárinnar stendur: "Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum." Þarna er verið að rétta stjórnmálamönnunum valdið yfir skipun dómara á silfurfati. STÓR mistök.
Hver man ekki eftir skipan Jóns Steinars Gunnlaugssonar, Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Þorsteins Davíðssonar?
Þetta er eitt grundvallaratriði sem stjórnlagaþing þarf að útfæra. Það kemur væntanlega í hlut þeirrar starfsnefndar er nefnist "Nefnd um undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, dómstóla og réttarríkið." og er hún ein af þrem starfsnefndum stjórnlagaþingsins. Ef ég kæmist inn á stjórnlagaþing er þetta líklega sú nefnd sem ég myndi helst vilja starfa í.
Ég vil jafnvel ganga svo langt að segja að pólitískar skipanir á dómurum séu mannréttindabrot og þar með stjórnarskrárbrot. Getur pólitískt skipaður dómari af til dæmis Sjálfstæðisflokknum kveðið upp hlutlausan dóm um manneskju tengda Samfylkingunni sem gæti talist sem pólitískur andstæðingur? Eins og ég áður sagði er hér um að ræða stóran kerfisgalla sem þarf að kippa í liðinn.
Dómsstigin eru tvö eins og er en ekkert er tilgreint um það í stjórnarskránni. Hér er um að ræða héraðsdóm og Hæstarétt. Landsdómur hefur líka verið áberandi undanfarnar vikur. Mín tillaga væri að fella landsdóm út úr stjórnarskránni og að Hæstiréttur myndi dæma þau mál er snúa að ráðherrum. Ég tel að ákvæðið um ráðherraábyrgð sé mikilvægt aðhald en fara ætti bandarísku leiðina í þessu máli og láta embættisrekstur ráðherra undir lögsögu Hæstaréttar. Forsenda þess er auðvitað að dómarar séu ekki pólitískt skipaðir.
Svokallað millidómsstig hefur verið í umræðunni síðustu mánuði. Mest hefur heyrst í lögfræðingum hvað það varðar og segja margir þeirra að bæta verði við einu dómsstigi vegna þess hve mikið álag er á dómstólunum nú. Ástæðu aukins fjölda mála má auðvitað rekja til hruns bankanna haustið 2008. Svona hugmynd er vert að skoða og greina þörfina fyrir auka dómsstig.
Að lokum
Aðalatriðið sem hér kemur fram er að dómarar séu ekki á nokkurn hátt pólitískt skipaðir. Það þarf að tryggja í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það liggur beinast við að dómarar yrðu kosnir persónukosningu af þjóðinni allri svo enginn vafi léki á um trúverðugleika þeirra.
Kærar kveðjur
Jón Pálmar Ragnarsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.10.2010 | 12:45
Framboði skilað inn - flokkakerfið ónýtt?
Góðan dag
Í morgun skilaði ég inn framboði til Landskjörstjórnar í Alþingishúsinu. Það hús hefur reyndar munað fífil sinn fegurri. Sprungur eru í mörgum gluggum.
Framboðinu skilaði ég inn með 50 meðmælendum.
Stefnuskráin er í sífelldri vinnslu og alltaf að bætast við. Sífellt fleiri ætla í framboð til stjórnlagaþings. Alltaf rekur maður augun í ný nöfn þegar maður skoðar vefinn. Sum nöfn án þess að ég nefni nein þekkir maður frá flokkapólitíkinni. Mér finnst skömm að því að flokkatengt fólk sé að fara í framboð til stjórnlagaþings. Eru engin takmörk fyrir því hverju flokkarnir skipta sér af? Lögin um stjórnlagaþing banna reyndar alþingsmönnum, varamönnum þeirra, ráðherrum, forseta Íslands og auðvitað stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd að fara í framboð til stjórnlagaþings. En svo er fólk sem er augljóslega flokkatengt að bjóða sig fram. Það er ekki í lagi og ég færi rök fyrir því hér að neðan.
Stjórnarskráin á ekki að vera skrifuð af flokkspólitísku fólki sem hugsar um hagsmuni flokksins og gæðinga hans. Hún á að vera skrifuð af óflokksbundnu fólki sem hugsar um hagsmuni allra Íslendinga.
Ég hallast að því að flokkakerfið hér (fjórflokkurinn) sé ónýtt. Hugsunin bak við flokkakerfið er kannski ekki vitlaus. En það er búið að misnota það svo mikið til eigin pólitísks og hagsmuna framapots, fyrirgreiðslu og pólitískra ráðninga að engu lagi er líkt. Ég þarf ekki einu sinni að taka dæmi.
Meira að segja fyrir nokkrum áratugum, þekktist það og var viðurkennt að hér væru stunduð fyrirgreiðslustjórnmál. Þá lofuðu frambjóðendur hinu og þessu fyrir ákveðna einstaklinga eða fyrirtæki ef þeir gáfu þeim atkvæði sitt til að komast til valda. Spillingin var þá að minnsta kosti uppi á borðinu.
Síðustu ár hefur spillingin ekki verið eins mikið uppi á borðinu en margt hefur þó komið í ljós í kjölfar hrunsins, tja sem hefði kannski ekki komist upp annars. Foringjar og valdamenn stjórnmálaflokkanna hafa verið slæmar fyrirmyndir fyrir ungt fólk og varpað ógeðslegu ljósi á stjórnmálin undanfarin ár með spillingu og slæmu/engu siðferði. Það er ekki skrýtið að þorrinn af ungu fólki hafi engan einasta áhuga á stjórnmálum. Ekki heyrir maður um spillingu eða vesen í grasrót flokka, ungliðahreyfingum, kjördæmaráðum og fleiri deildum þeirra. Allt virðist ganga smurt þar. Unga fólkið þarf að horfa upp á foringjana í þeirra flokk síspillta og alveg hægri-vinstri, engin stefna í mikilvægum málum. Hvers lags framtíð á þetta fyrir sér? Svar: Enga.
Niðurstaða: Fjórflokkakerfið er ónýtt og auðmisnotað virðist vera, og það þarf annað kerfi að koma í staðinn.
Með nýrri stjórnarskrá er hægt að breyta því. Stjórnarskráin er nefnilega grunnlögin, hún er upphafið. Byrjunarreitur á leið til betra lífs. Eftir þennan lestur sjáið þið af hverju flokkatengt fólk ætti ekki að koma nálægt endurskoðun stjórnarsrkárinnar.
Kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2010 | 13:51
Fréttir af framboði
Kæru lesendur
Það sem ég hef haft fyrir stafni undanfarna daga er að safna meðmælendum á skrá hjá mér og hefur það gengið mjög vel. Allir hafa verið boðnir og búnir að hjálpa mér og allsstaðar hefur mér verið vel tekið. Sumir hafa þó hváð þegar ég hef sagt þeim að ég sé að fara í framboð til stjórnlagaþings en þá hef ég reynt að útskýra um leið hvað stjórnlagaþing er og hvað hlutverk þess er. Ég sé að það hefur opnað augu margra fyrir því hve mikilvægt þetta þing er.
Nú er meðmælendasöfnunni lokið og alls mæltu 50 manns með framboði mínu og kann ég þeim öllum hinar bestu þakkir fyrir. Án ykkar væri þetta náttúrulega ekki hægt. Framboðinu mun ég skila inn eftir helgina.
Núgildandi stjórnarskrá hef ég rennt yfir nokkrum sinnum síðustu daga til upprifjunar frá nokkrum skyldulestrum úr stjórnmálafræðináminu. Því oftar sem ég les hana því meir finnst mér að þurfi að endurskoða hana. Það er bara svo margt sem kallar á breytingar í henni og mig klæjar í puttana að fá að hafa áhrif í því ferli.
Einnig vil ég minnast á að meistari Friðrik tengdi þessa bloggsíðu mína við lénið mitt sem er: www.jonpalmar.com svona til bráðabirgða allavega. Þannig að hér eftir er upplagt að nota þá slóð til að lesa mín skrif.
Pælingin var að fá alvöru vefsíðu með eigin útliti. Það mál er í vinnslu og gerist vonandi eitthvað í því næstu daga með hjálp góðs fólks.
Bestu kveðjur og hafið góða helgi
Jón Pálmar Ragnarsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2010 | 02:19
Löggjafarvaldið
Íslensk stjórnskipun samanstendur núna af löggjafarvaldi (Alþingi), framkvæmdavaldi (ríkisstjórn) og dómsvaldi(dómstólar).
Þetta eru 3 öfl sem stjórnskipun Íslands byggist upp á og þau þurfa að slá í takt, vinna saman en samt í leiðinni að vera tortryggin gagnvart hvert öðru og þannig hafa eftirlit með hverju öðru. Eitthvað hefur þessi kenning samt gengið brösulega upp undanfarið, og finnst mér gleggsta dæmið vera það hversu valdalítið og minnimáttar Alþingi er orðið gagnvart ríkisstjórninni. Tilfinningin er sú að Alþingi sé bara notað sem afgreiðslustofnun fyrir einbeittan vilja og geðþóttaákvarðanir ríkisstjórnarinnar í krafti meirihluta. Þessu þarf að breyta og stjórnarskráin getur svo sannarlega verið vettvangur til þess.
Löggjafarvaldið er eins og er samansett af 63 þingmönnum úr 5 stjórnmálaflokkum. Umræðan þessa dagana virðist vera að færast í átt frá flokkakerfinu til utanþingsstjórnar eða títtnefndar þjóðstjórnar. Ekki er skrýtið að fólk velti fyrir sér annarri samsetningu á löggjafarvaldinu. Hægt er að ganga mislangt í þessum pælingum, til dæmis með gjörbyltingu á íslenskri stjórnskipun. Viltu breyta fyrirkomulagi á Alþingi en halda stjórnmálaflokkunum? Eða viltu útrýma flokkakerfinu og taka upp hreint persónukjör þingmanna? Ég ætla ekki að ganga svo langt í þessum pistli heldur kynna hugmyndir mínar um breytingar á fyrirkomulagi Alþingis í núverandi mynd sem ég tel að gætu eflt sjálfstæði og virðingu þess gagnvart fólkinu í landinu.
Það sem ég myndi vilja sjá er að taka aftur upp deildaskiptingu Alþingis í 2 deildir. Alþingi var deildaskipt í 2 deildir frá 1874 til 1991 þannig að þetta er ekkert nýtt fyrirkomulag fyrir Íslendingum.
Deildaskipt þing er til dæmis notað í Bandaríkjunum, fulltrúadeild og öldungadeild. Þar fær hvert fylki ákveðið marga þingmenn í fulltrúadeild sem fer eftir íbúafjölda í fylkinu. Öldungadeild samanstendur svo af 2 þingmönnum úr hverju fylki.
Mín tillaga væri að færa þetta fyrirkomulag upp á íslenskt löggjafarvald. Þá yrði Alþingi skipt í efri og neðri deild, eða fulltrúa -og öldungadeild, (skiptir svo sem ekki miklu máli hvað skiptingin myndi kallast). Þá myndu kjördæmin fá ákveðið marga þingmenn kjörna fyrir sig í fulltrúadeild í samræmi við íbúafjölda kjördæmisins. Svo myndu öldungadeildarþingmenn verða kosnir sér, af íbúum kjördæmisins, eða jafnvel persónukosningu af allri þjóðinni þar sem landið yrði eitt kjördæmi. Það má útfæra það á ýmsa vegu.
Pæling mín er sú að fulltrúadeildin yrði þá pólitískt kosin eftir flokkslínum en öldungadeildin yrði kosin ópólitískt, það myndi gefa ákveðið jafnvægi. Einnig myndi deildaskipting gefa aukið valdajafnvægi, þar sem lög yrðu ekki samþykkt nema með meirihlutasamþykki beggja deilda. Þetta fyrirkomulag myndi skapa meiri vandvirkni og eftirlit og minnka í leiðinni flokkapólitík og hrossakaup á Alþingi. Útkoman myndi verða mun traustverðari, nákvæmari og vandvirkari löggjöf fyrir fólkið í landinu.
Nefndastörf myndu skiptast milli deilda, þingmenn yrðu fleiri við þetta fyrirkomulag býst ég við. Sumar nefndir myndu samanstanda af meðlimum úr báðum deildum. Deildirnar myndu starfa í sitthvorri málstofunni að sjálfsögðu.
Eins og áður segir miðast þessar úrbætur við núverandi fyrirkomulag og breytingar á því. Auðvitað krefjast þessar úrbætur breytinga á framkvæmdavaldinu og hvernig það er samansett og kosið. Þessi pistill átti reyndar bara að fjalla um löggjafarvaldið. Ríkisstjórnin myndi samanstanda af fulltrúum þeirra flokka í fulltrúadeildinni sem færir eru um að mynda ríkisstjórn í krafti fjölda fenginna atkvæða. Þetta þyrftu að vera flokkar sem færir væru um að starfa saman og einnig með meirihluta í fulltrúadeildinni.
Stjórnarandstaðan í fulltrúadeildinni væri þá hin pólitíska stjórnarandstaða. Öldungadeildin yrði eins og áður sagði persónukjörnir ópólitískir fulltrúar sem ekki væru skuldbundnir neinum flokkslínum.
Þarna er komið það valdajafnvægi sem ég skrifaði um í jafnvægi að skorti milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins.
Þessar vangaveltur eru auðvitað mínar hugsanir og kannski svolítið langsóttar... en hver veit?
Gaman væri að heyra skoðanir fólks á málinu.
Takk fyrir.
Bestu kveðjur
Jón Pálmar Ragnarsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2010 | 01:10
Hvað er þetta stjórnlagaþing ?
Kæru lesendur
Ég hef verið spurður þessarar spurningar reglulega undanfarna daga. Það er ekkert skrýtið að kjósendur viti lítið um hvað þetta er. Lítið hefur verið fjallað um Stjórnlagaþingið í fjölmiðlum og einhvern veginn hefur þetta allt saman farið mjög lágt í umræðunni. Kjósendur eru ekki nægilega vel upplýstir um tilgang, framkvæmd og hlutverk Stjórnlagaþingsins sem er miður.
Þess vegna ætla ég að reyna að útskýra í þessum pistli á mannamáli hvað þetta Stjórnlagaþing er og hvernig það virkar. En þeim sem vilja lesa gallharðan lagabókstafinn um Stjórnlagaþingið bendi ég á lög nr. 90/2010. Einnig lög um breytingar á lögum nr. 90/2010 en þau lög eru nr. 120/2010.
Stjórnlagaþing er ætlað sem ráðgefandi þing sem hefur þann tilgang að endurskoða stjórnarskrána, það hefur engin bein völd. Alþingi hefur lokaorðið. Þau atriði sem Stjórnlagaþingið á að fjalla helst um eru þessi.
1.Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
2.Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
3.Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
4.Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
5.Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
6.Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
7.Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
8.Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
Kjördagur er 27. nóvember næstkomandi og landið er eitt kjördæmi í þessari kosningu, rétt eins og við forsetakosningar hér á landi. En það er eitt sem er sérstakt við þessar kosningar. Það er kosningakerfið sem notað verður. Það er svokallað "Single Transferable Vote" skammstafað STV. Þetta kerfi hentar vel fyrir persónukosningar, vegna þess hve vel það kemur til móts við óskir kjósenda. Á Stjórnlagaþingið munu verða kosnir 25 fulltrúar. Allir frambjóðendur sem enginn veit ennþá hversu margir verða, munu fá sérstakt auðkennisnúmer. STV kerfið býður upp á að kjósa allt frá 1 og upp í 25 á einum kjörseðli. Þá setur kjósandi einfaldlega saman sinn lista eftir því sem hann vill helst sjá á Stjórnlagaþingi. Í efsta kassann á kjörseðlinum setur hann auðkennisnúmer þess frambjóðanda sem hann helst vill að komist inn. Svo setur hann auðkennisnúmer þess frambjóðanda í næstefsta kassann á seðlinum sem hann vill svo að næst komist inn og svo framvegis, allt upp í 25. Raða má eins mörgum frambjóðendum á seðilinn eins og kjósandi vill, það er í lagi þess vegna að setja einungis 1 frambjóðenda á hann, bara að það sé á bilinu 1-25. Sýnishorn af kjörseðlum verða send á hvert heimili til að fólk átti sig betur á þeim.
Einnig verður öllum frambjóðendum gert jafn hátt undir höfði hvað varðar kynningu því öll heimili landsins eiga von á kynningarefni um alla frambjóðendur þegar fram líður.
Kjörstaðir verða að mér skilst þeir sömu og í Alþingiskosningum, en þar sem landið er eitt kjördæmi í þessari kosningu getur hver kosningabær einstaklingur kosið á hvaða kjörstað sem er !
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst 7. nóvember.
Með fyrstu verkum Stjórnlagaþingsins verður að kjósa í nefndir.
Forsætisnefnd. Nefnd um undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, dómstóla og réttarríkið. Nefnd um skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og hlutverk forseta lýðveldisins og nefnd um kosningamál og þjóðaratkvæðagreiðslur.
Stjórnlagaþingið mun starfa í einni deild og eru fundir þess opnir öllum.
Fulltrúar á Þinginu eru eingöngu bundnir sannfæringu sinni.
Afurð Stjórnlagaþingsins mun verða frumvarp til stjórnskipunarlaga sem svo verður sent Alþingi til meðferðar, sem sagt umræðu og atkvæðagreiðslu.
Þetta er svona það helsta í sambandi við Stjórnlagaþingið. Þetta er allt heilmikið ferli og ég kem ekki inn á nærri allt saman í þessari samantekt. En ég minni á að þetta ferli kemur öllum Íslendingum við. Hér er verið að setja saman ramma um það í hvernig samfélagi þú og næstu kynslóðir munu lifa. Þess vegna ættu allir að láta sig málið varða, kynna sér málið og taka afstöðu á kjördag.
Takk fyrir og ég vona að þessi pistill hafi orðið til að auka skilning og áhuga.
Kær kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.10.2010 | 13:57
Stjórnlagaþing er á næsta leyti
Kæru lesendur
Síðan hugmyndin um stjórnlagaþing kom upp hef ég sannfærst meira og meira um að mig langi að taka þátt í því. Þetta er einstakt tækifæri fyrir meðal-jón eins og mig (já, ég heiti Jón) til að vera hluti af heild sem getur haft gríðarleg áhrif á breytingar á stjórnarskrá Íslands. Nú er búið að festa í lög hvernig uppbygging stjórnlagaþingsins verður og framboðsfrestur rennur út 18. október.
Hér með tilkynni ég framboð mitt formlega þó ekki hafi ég skilað inn framboði ennþá, meðmælendasöfnun er í gangi eins og er. Ég er ekki í framboði fyrir nein samtök, flokk eða neitt slíkt. Þessi ákvörðun mín um framboð er algjörlega sjálfsprottin vegna löngunnar minnar og ástríðu til að hafa áhrif á hið merka plagg sem stjórnarskráin er.
Svo ég segi aðeins frá sjálfum mér þá heiti ég Jón Pálmar Ragnarsson og er 23 ára gamall. Ég er fæddur í Reykjavík og bjó þar fyrstu ár ævi minnar en flutti svo í sveit, nánar tiltekið í Hrútafjörð þar sem ég svo ólst upp þangað til ég fór í framhaldsskóla og síðar háskóla. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og stunda nú mastersnám í opinberri stjórnsýslu með áherslu á alþjóðasamskipti við sama skóla. Tel ég að menntun mín í stjórnmálafræði hafi gagnast mér mjög mikið við að skilja íslenska stjórnskipun og aðalritið sem snýr að henni er auðvitað stjórnarskráin, sem líta má á sem plagg sem leggur lífsreglurnar fyrir okkur Íslendinga og hvernig samfélagi við viljum búa í. Menntunin hefur einnig kennt mér að nota gagnrýna hugsun við nánast allt sem maður tekur sér fyrir hendur, að vera með gagnrýnisgleraugun gagnvart ríkisvaldinu og vera skeptískur á fjölmiðlaumfjöllun en í leiðinni að sýna sanngirni. Það sem ég vil gera er að nota mína reynslu og getu til þess að vinna að breytingum á stjórnarskrá Íslands. Ef ég mun njóta þeirra forréttinda að veljast inn á stjórnlagaþingið mun ég starfa þar að heilindum fyrir Íslendinga með almannahagsmuni í húfi.
Í núgildandi stjórnarskrá eru mörg atriði og ákvæði sem að mínu mati má ýmist fjarlægja, breyta, bæta eða lagfæra. Svo eru líka atriði sem bæta má við hana. Stjórnarskráin er gömul. Íslendingar fengu hana frá Danakonungi árið 1874 og síðan eru liðin mörg ár. Ekki hafa verið gerðar margar breytingar á henni síðan en þó einhverjar. Til dæmis hefur kjördæmaskipulagi verið breytt og mannréttindakaflanum.
Það sem ég hef mikinn áhuga á eru réttindi einstaklinga, mannréttindin. Frelsi einstaklingsins er mér ofarlega í huga og mín skoðun er sú að það eigi að vera sem mest auðvitað en að sjálfsögðu án þess að skaða aðra. Þó mannréttindakaflinn hafi verið endurskoðaður fyrir nokkrum árum er alltaf hægt að gera betur vegna þróunar í mannréttindamálum, þar sem aðalbaráttan fer fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindi eru mitt sérfræðisvið hvað viðkemur stjórnarskránni. BA ritgerð mín í stjórnmálafræði fjallar í byrjun um sögu mannréttinda en aðalefni ritgerðarinnar eru mannréttindi í Bandaríkjunum. Ritgerðin ber heitið: "Mannréttindi og mannréttindastefna Bandaríkjanna: í orði og á borði" og er aðgengileg fyrir alla til aflestrar hér: http://skemman.is/handle/1946/4748
Skilgreina þarf betur þrískiptingu valdsins í stjórnarskránni og hafa í huga jafnvægi og mótvægi þessara þriggja afla, svokallað "checks and balances".
Kosningakerfinu þarf að breyta og er ég með vissar hugmyndir um hvaða kosningakerfi hentar Íslandi betur en núverandi kerfi.
Endurskoða þarf völd og hlutverk forsetaembættisins í stjórnarskránni.
Kjördæmaskipulagið þarf að taka til endurskoðunar og er það auðvitað mjög skylt kosningakerfinu. Þetta þarf að endurskoðast samtímis með tilliti til vægi atkvæða og að kjósendur get haft sem mest áhrif.
Þetta eru einungis nokkur atriði sem ég hef sett hér fram og listinn er alls ekki tæmandi. Ég mun gefa út stefnuskrá mína á næstu dögum svo kjósendur sem þetta lesa geti séð fyrir hvaða áherslur, breytingar og aðferðir ég stend fyrir því vel upplýstur kjósandi er besti kjósandinn.
Tillögur, athugasemdir tengdar umræðunni eru ávallt velkomnar í athugasemdakerfið eða í tölvupóst til mín á: jonpalmar(hjá)gmail.com.
Takk fyrir lesturinn og góða helgi.
Kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)