3.10.2010 | 01:10
Hvað er þetta stjórnlagaþing ?
Kæru lesendur
Ég hef verið spurður þessarar spurningar reglulega undanfarna daga. Það er ekkert skrýtið að kjósendur viti lítið um hvað þetta er. Lítið hefur verið fjallað um Stjórnlagaþingið í fjölmiðlum og einhvern veginn hefur þetta allt saman farið mjög lágt í umræðunni. Kjósendur eru ekki nægilega vel upplýstir um tilgang, framkvæmd og hlutverk Stjórnlagaþingsins sem er miður.
Þess vegna ætla ég að reyna að útskýra í þessum pistli á mannamáli hvað þetta Stjórnlagaþing er og hvernig það virkar. En þeim sem vilja lesa gallharðan lagabókstafinn um Stjórnlagaþingið bendi ég á lög nr. 90/2010. Einnig lög um breytingar á lögum nr. 90/2010 en þau lög eru nr. 120/2010.
Stjórnlagaþing er ætlað sem ráðgefandi þing sem hefur þann tilgang að endurskoða stjórnarskrána, það hefur engin bein völd. Alþingi hefur lokaorðið. Þau atriði sem Stjórnlagaþingið á að fjalla helst um eru þessi.
1.Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
2.Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
3.Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
4.Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
5.Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
6.Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
7.Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
8.Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
Kjördagur er 27. nóvember næstkomandi og landið er eitt kjördæmi í þessari kosningu, rétt eins og við forsetakosningar hér á landi. En það er eitt sem er sérstakt við þessar kosningar. Það er kosningakerfið sem notað verður. Það er svokallað "Single Transferable Vote" skammstafað STV. Þetta kerfi hentar vel fyrir persónukosningar, vegna þess hve vel það kemur til móts við óskir kjósenda. Á Stjórnlagaþingið munu verða kosnir 25 fulltrúar. Allir frambjóðendur sem enginn veit ennþá hversu margir verða, munu fá sérstakt auðkennisnúmer. STV kerfið býður upp á að kjósa allt frá 1 og upp í 25 á einum kjörseðli. Þá setur kjósandi einfaldlega saman sinn lista eftir því sem hann vill helst sjá á Stjórnlagaþingi. Í efsta kassann á kjörseðlinum setur hann auðkennisnúmer þess frambjóðanda sem hann helst vill að komist inn. Svo setur hann auðkennisnúmer þess frambjóðanda í næstefsta kassann á seðlinum sem hann vill svo að næst komist inn og svo framvegis, allt upp í 25. Raða má eins mörgum frambjóðendum á seðilinn eins og kjósandi vill, það er í lagi þess vegna að setja einungis 1 frambjóðenda á hann, bara að það sé á bilinu 1-25. Sýnishorn af kjörseðlum verða send á hvert heimili til að fólk átti sig betur á þeim.
Einnig verður öllum frambjóðendum gert jafn hátt undir höfði hvað varðar kynningu því öll heimili landsins eiga von á kynningarefni um alla frambjóðendur þegar fram líður.
Kjörstaðir verða að mér skilst þeir sömu og í Alþingiskosningum, en þar sem landið er eitt kjördæmi í þessari kosningu getur hver kosningabær einstaklingur kosið á hvaða kjörstað sem er !
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst 7. nóvember.
Með fyrstu verkum Stjórnlagaþingsins verður að kjósa í nefndir.
Forsætisnefnd. Nefnd um undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, dómstóla og réttarríkið. Nefnd um skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og hlutverk forseta lýðveldisins og nefnd um kosningamál og þjóðaratkvæðagreiðslur.
Stjórnlagaþingið mun starfa í einni deild og eru fundir þess opnir öllum.
Fulltrúar á Þinginu eru eingöngu bundnir sannfæringu sinni.
Afurð Stjórnlagaþingsins mun verða frumvarp til stjórnskipunarlaga sem svo verður sent Alþingi til meðferðar, sem sagt umræðu og atkvæðagreiðslu.
Þetta er svona það helsta í sambandi við Stjórnlagaþingið. Þetta er allt heilmikið ferli og ég kem ekki inn á nærri allt saman í þessari samantekt. En ég minni á að þetta ferli kemur öllum Íslendingum við. Hér er verið að setja saman ramma um það í hvernig samfélagi þú og næstu kynslóðir munu lifa. Þess vegna ættu allir að láta sig málið varða, kynna sér málið og taka afstöðu á kjördag.
Takk fyrir og ég vona að þessi pistill hafi orðið til að auka skilning og áhuga.
Kær kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson
Athugasemdir
I would like to be able to use this site to help me learn icelandic and Old Norse.
Ég vil læra Íslenzku, og vil gæra það hér. Ég bó í Ástraliu, en kom frá Svíþjoð og haddi dönsku foreldrar.
Ef Það ekki má, þá vilduð þér géra svo vel að seggja mér nokkurt um það.
Takk fyrir
Cecil Posaing
Cecil Ponsaing (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 10:02
Flottur pistill Jón. Kem til með að fylgjast grannt með þér og þínum skoðunum núna á næstunni.
Magnús (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.