Leita í fréttum mbl.is

Löggjafarvaldið

Íslensk stjórnskipun samanstendur núna af löggjafarvaldi (Alþingi), framkvæmdavaldi (ríkisstjórn) og dómsvaldi(dómstólar).

Þetta eru 3 öfl sem stjórnskipun Íslands byggist upp á og þau þurfa að slá í takt, vinna saman en samt í leiðinni að vera tortryggin gagnvart hvert öðru og þannig hafa eftirlit með hverju öðru. Eitthvað hefur þessi kenning samt gengið brösulega upp undanfarið, og finnst mér gleggsta dæmið vera það hversu valdalítið og minnimáttar Alþingi er orðið gagnvart ríkisstjórninni. Tilfinningin er sú að Alþingi sé bara notað sem afgreiðslustofnun fyrir einbeittan vilja og geðþóttaákvarðanir ríkisstjórnarinnar í krafti meirihluta. Þessu þarf að breyta og stjórnarskráin getur svo sannarlega verið vettvangur til þess.
Löggjafarvaldið er eins og er samansett af 63 þingmönnum úr 5 stjórnmálaflokkum. Umræðan þessa dagana virðist vera að færast í átt frá flokkakerfinu til utanþingsstjórnar eða títtnefndar þjóðstjórnar. Ekki er skrýtið að fólk velti fyrir sér annarri samsetningu á löggjafarvaldinu. Hægt er að ganga mislangt í þessum pælingum, til dæmis með gjörbyltingu á íslenskri stjórnskipun. Viltu breyta fyrirkomulagi á Alþingi en halda stjórnmálaflokkunum? Eða viltu útrýma flokkakerfinu og taka upp hreint persónukjör þingmanna? Ég ætla ekki að ganga svo langt í þessum pistli heldur kynna hugmyndir mínar um breytingar á fyrirkomulagi Alþingis í núverandi mynd sem ég tel að gætu eflt sjálfstæði og virðingu þess gagnvart fólkinu í landinu.

Það sem ég myndi vilja sjá er að taka aftur upp deildaskiptingu Alþingis í 2 deildir. Alþingi var deildaskipt í 2 deildir frá 1874 til 1991 þannig að þetta er ekkert nýtt fyrirkomulag fyrir Íslendingum.
Deildaskipt þing er til dæmis notað í Bandaríkjunum, fulltrúadeild og öldungadeild. Þar fær hvert fylki ákveðið marga þingmenn í fulltrúadeild sem fer eftir íbúafjölda í fylkinu. Öldungadeild samanstendur svo af 2 þingmönnum úr hverju fylki.
Mín tillaga væri að færa þetta fyrirkomulag upp á íslenskt löggjafarvald. Þá yrði Alþingi skipt í efri og neðri deild, eða fulltrúa -og öldungadeild, (skiptir svo sem ekki miklu máli hvað skiptingin myndi kallast). Þá myndu kjördæmin fá ákveðið marga þingmenn kjörna fyrir sig í fulltrúadeild í samræmi við íbúafjölda kjördæmisins. Svo myndu öldungadeildarþingmenn verða kosnir sér, af íbúum kjördæmisins, eða jafnvel persónukosningu af allri þjóðinni þar sem landið yrði eitt kjördæmi. Það má útfæra það á ýmsa vegu.
Pæling mín er sú að fulltrúadeildin yrði þá pólitískt kosin eftir flokkslínum en öldungadeildin yrði kosin ópólitískt, það myndi gefa ákveðið jafnvægi. Einnig myndi deildaskipting gefa aukið valdajafnvægi, þar sem lög yrðu ekki samþykkt nema með meirihlutasamþykki beggja deilda. Þetta fyrirkomulag myndi skapa meiri vandvirkni og eftirlit og minnka í leiðinni flokkapólitík og hrossakaup á Alþingi. Útkoman myndi verða mun traustverðari, nákvæmari og vandvirkari löggjöf fyrir fólkið í landinu.

Nefndastörf myndu skiptast milli deilda, þingmenn yrðu fleiri við þetta fyrirkomulag býst ég við. Sumar nefndir myndu samanstanda af meðlimum úr báðum deildum. Deildirnar myndu starfa í sitthvorri málstofunni að sjálfsögðu.
Eins og áður segir miðast þessar úrbætur við núverandi fyrirkomulag og breytingar á því. Auðvitað krefjast þessar úrbætur breytinga á framkvæmdavaldinu og hvernig það er samansett og kosið. Þessi pistill átti reyndar bara að fjalla um löggjafarvaldið. Ríkisstjórnin myndi samanstanda af fulltrúum þeirra flokka í fulltrúadeildinni sem færir eru um að mynda ríkisstjórn í krafti fjölda fenginna atkvæða. Þetta þyrftu að vera flokkar sem færir væru um að starfa saman og einnig með meirihluta í fulltrúadeildinni.
Stjórnarandstaðan í fulltrúadeildinni væri þá hin pólitíska stjórnarandstaða. Öldungadeildin yrði eins og áður sagði persónukjörnir ópólitískir fulltrúar sem ekki væru skuldbundnir neinum flokkslínum.
Þarna er komið það valdajafnvægi sem ég skrifaði um í jafnvægi að skorti milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins.
Þessar vangaveltur eru auðvitað mínar hugsanir og kannski svolítið langsóttar... en hver veit?

Gaman væri að heyra skoðanir fólks á málinu.

Takk fyrir.

Bestu kveðjur

Jón Pálmar Ragnarsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Pálmar Ragnarsson
Jón Pálmar Ragnarsson
Frambjóðandi til komandi Stjórnlagaþings. Kosið verður 27. nóvember næstkomandi. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt frá HÍ og stunda nú mastersnám í opinberri stjórnsýslu með áherslu á alþjóðasamskipti við sama skóla. Ég vil hafa áhrif við mótun nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Núgildandi stjórnarskrá hefur komið mikið við sögu í mínu námi og ég hef lengi haft brennandi áhuga henni og hlutverki hennar. Einnig geng ég með margar hugmyndir að breytingum og betrumbótum á henni í kollinum. ÞESS vegna býð ég mig fram.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband