8.10.2010 | 13:51
Fréttir af framboði
Kæru lesendur
Það sem ég hef haft fyrir stafni undanfarna daga er að safna meðmælendum á skrá hjá mér og hefur það gengið mjög vel. Allir hafa verið boðnir og búnir að hjálpa mér og allsstaðar hefur mér verið vel tekið. Sumir hafa þó hváð þegar ég hef sagt þeim að ég sé að fara í framboð til stjórnlagaþings en þá hef ég reynt að útskýra um leið hvað stjórnlagaþing er og hvað hlutverk þess er. Ég sé að það hefur opnað augu margra fyrir því hve mikilvægt þetta þing er.
Nú er meðmælendasöfnunni lokið og alls mæltu 50 manns með framboði mínu og kann ég þeim öllum hinar bestu þakkir fyrir. Án ykkar væri þetta náttúrulega ekki hægt. Framboðinu mun ég skila inn eftir helgina.
Núgildandi stjórnarskrá hef ég rennt yfir nokkrum sinnum síðustu daga til upprifjunar frá nokkrum skyldulestrum úr stjórnmálafræðináminu. Því oftar sem ég les hana því meir finnst mér að þurfi að endurskoða hana. Það er bara svo margt sem kallar á breytingar í henni og mig klæjar í puttana að fá að hafa áhrif í því ferli.
Einnig vil ég minnast á að meistari Friðrik tengdi þessa bloggsíðu mína við lénið mitt sem er: www.jonpalmar.com svona til bráðabirgða allavega. Þannig að hér eftir er upplagt að nota þá slóð til að lesa mín skrif.
Pælingin var að fá alvöru vefsíðu með eigin útliti. Það mál er í vinnslu og gerist vonandi eitthvað í því næstu daga með hjálp góðs fólks.
Bestu kveðjur og hafið góða helgi
Jón Pálmar Ragnarsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.