15.10.2010 | 12:45
Framboði skilað inn - flokkakerfið ónýtt?
Góðan dag
Í morgun skilaði ég inn framboði til Landskjörstjórnar í Alþingishúsinu. Það hús hefur reyndar munað fífil sinn fegurri. Sprungur eru í mörgum gluggum.
Framboðinu skilaði ég inn með 50 meðmælendum.
Stefnuskráin er í sífelldri vinnslu og alltaf að bætast við. Sífellt fleiri ætla í framboð til stjórnlagaþings. Alltaf rekur maður augun í ný nöfn þegar maður skoðar vefinn. Sum nöfn án þess að ég nefni nein þekkir maður frá flokkapólitíkinni. Mér finnst skömm að því að flokkatengt fólk sé að fara í framboð til stjórnlagaþings. Eru engin takmörk fyrir því hverju flokkarnir skipta sér af? Lögin um stjórnlagaþing banna reyndar alþingsmönnum, varamönnum þeirra, ráðherrum, forseta Íslands og auðvitað stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd að fara í framboð til stjórnlagaþings. En svo er fólk sem er augljóslega flokkatengt að bjóða sig fram. Það er ekki í lagi og ég færi rök fyrir því hér að neðan.
Stjórnarskráin á ekki að vera skrifuð af flokkspólitísku fólki sem hugsar um hagsmuni flokksins og gæðinga hans. Hún á að vera skrifuð af óflokksbundnu fólki sem hugsar um hagsmuni allra Íslendinga.
Ég hallast að því að flokkakerfið hér (fjórflokkurinn) sé ónýtt. Hugsunin bak við flokkakerfið er kannski ekki vitlaus. En það er búið að misnota það svo mikið til eigin pólitísks og hagsmuna framapots, fyrirgreiðslu og pólitískra ráðninga að engu lagi er líkt. Ég þarf ekki einu sinni að taka dæmi.
Meira að segja fyrir nokkrum áratugum, þekktist það og var viðurkennt að hér væru stunduð fyrirgreiðslustjórnmál. Þá lofuðu frambjóðendur hinu og þessu fyrir ákveðna einstaklinga eða fyrirtæki ef þeir gáfu þeim atkvæði sitt til að komast til valda. Spillingin var þá að minnsta kosti uppi á borðinu.
Síðustu ár hefur spillingin ekki verið eins mikið uppi á borðinu en margt hefur þó komið í ljós í kjölfar hrunsins, tja sem hefði kannski ekki komist upp annars. Foringjar og valdamenn stjórnmálaflokkanna hafa verið slæmar fyrirmyndir fyrir ungt fólk og varpað ógeðslegu ljósi á stjórnmálin undanfarin ár með spillingu og slæmu/engu siðferði. Það er ekki skrýtið að þorrinn af ungu fólki hafi engan einasta áhuga á stjórnmálum. Ekki heyrir maður um spillingu eða vesen í grasrót flokka, ungliðahreyfingum, kjördæmaráðum og fleiri deildum þeirra. Allt virðist ganga smurt þar. Unga fólkið þarf að horfa upp á foringjana í þeirra flokk síspillta og alveg hægri-vinstri, engin stefna í mikilvægum málum. Hvers lags framtíð á þetta fyrir sér? Svar: Enga.
Niðurstaða: Fjórflokkakerfið er ónýtt og auðmisnotað virðist vera, og það þarf annað kerfi að koma í staðinn.
Með nýrri stjórnarskrá er hægt að breyta því. Stjórnarskráin er nefnilega grunnlögin, hún er upphafið. Byrjunarreitur á leið til betra lífs. Eftir þennan lestur sjáið þið af hverju flokkatengt fólk ætti ekki að koma nálægt endurskoðun stjórnarsrkárinnar.
Kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.