Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Helstu áherslur mínar (2446)

Kæru kjósendur

Hér að neðan gefur að líta nokkur áhersluatriði sem ég hef tekið saman. Margt af þessu hefur nú þegar komið fram. Það má líta á þessi atriði sem svokallaða stefnuskrá en ég hef tekið þá ákvörðun að fara alls ekki of mótaður af þröngt skorðuðm stefnumálum í framboð mitt til Stjórnlagaþings. Þess vegna vil ég frekar kalla þetta áherslur til þess að kjósendur viti hvað og hvernig ég hugsa um stjórnarskrána.
Í stuttu máli, þá er ég ekki talsmaður mikilla umbreytinga og byltinga í stjórnarskrármálum Íslands. Ég vil helst af öllu gera hana skýrari, skilvirkari svo hún verði öllum, fullorðnum og börnum aðgengileg og auðskiljanleg. Það er fyrir öllu. Lagfæringar hér og þar eru nauðsynlegar til þess.

Atriðin koma hér að neðan en ég vil einnig benda á útvarpsviðtal við mig, sérstaklega fyrir þá sem finnst þægilegra að hlusta en lesa :-) Þar kemur líka fram margt af því sem ég set í áherslurnar hér að neðan.
Viðtalið er hér: http://podcast.ruv.is/stjornlagathing/2446.mp3

Helstu áherslur:

• Stjórnskipunin skal vera þrískipt. Alþingi fer með löggjafarvald. Ríkisstjórn og forseti fer með framkvæmdavald og dómstólar fara með dómsvald.

• Ísland skal vera fullvalda þingræðisríki. Núgildandi stjórnarskrá samsvarar sér að miklu leyti með forsetaræði, þessu þarf að breyta. Fullveldi er vandmeðfarið hugtak – í stjórnarskráni vil ég þó tengja það við sjálfsákvarðanarétt. Almennt ákvæði þarf að vera til staðar sem varðar framsal á fullveldi ríkisins og hamlar því.

• Mannréttindi, lýðræði og frelsi: Vernda skal réttindi borgaranna gegn ofbeldi ríkisvaldsins. Núgildandi mannréttindakafli er ágætur en alltaf má betur gera. Ísland ætti að fylgjast vel með þróun mannréttinda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og jafnframt að beita sér fyrir auknum mannréttindum á þeim vettvangi og hér heima. Ég vil leggja áherslu á þriðju kynslóðar mannréttindi, og aukna virkni fólks í stjórnmálum, aukið lýræði.

• Dómstólar: Þeir skera úr um mál er varða réttindi og frelsi borgaranna. Þeir skulu vera sjálfstæðir, ópólitískt skipaðir og óháðir og skal það tryggt í stjórnarskrá.

• Stjórnmál og stjórnsýsla eru sitthvor póllinn sem helst ekki má blanda saman. Tryggja þarf að starfsmenn stjórnsýslunnar séu ekki pólitískt ráðnir heldur sé þeir ráðnir á faglegan hátt og metnir að verðleikum, ekki eftir flokksskírteinum. Stjórnmálamenn móta stefnu en starfsfólk stjórnsýslunnar framfylgir henni. Pólitískar ráðningar í stjórnsýsluna þarf að afnema og ráða inn fólk sem hefur viðhlítandi menntun og reynslu í þau störf sem þar eru.

• Lagaráð: Ópólitískt lagaráð sem samanstæði af lögfræðimenntuðu fólki sem hefði það hlutverk að yfirfara lagafrumvörp áður en þau fara til meðferðar Alþingis. Ráðið myndi gera athugasemdir og tillögur um endurbætur ef þess þyrfti. Þetta heldur Alþingi á tánum og skapar um leið vandaðri og skilvirkari löggjöf.

• Ráðherraábyrgð: Skýrari ákvæði þarf að setja um ráðherraábyrgð en nú er.

• Ráðherrar skulu ekki gegna þingmennsku samhliða ráðherradómi. Þeir skulu faglega ráðnir og starfa í umboði Alþingis en fyrst og fremst þjóðarinnar. Með þessu fæst vonandi skýrari stefnumótun og framtíðarsýn sem sárlega hefur vantað í íslensk stjórnmál síðustu áratugina. Einnig felur þessi breyting í sér stórbætta skiptingu löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

• Forsetinn: Forsetinn er æðsti embættismaður framkvæmdavaldsins. Hann skal halda svipuðum völdum og hann hefur nú. 26. greinin um málskotsrétt er mikilvægt aðhaldstæki sem mér finnst að hann eigi að hafa áfram.

• Kosningakerfi og kjördæmaskipan: Jafna skal atkvæðavægi og endurskoða kjördæmaskipan. Kosningakerfið sjálft má jafnframt endurskoða.

• Gera þarf kjósendum og minnihluta Alþingis auðveldara fyrir að krefjast þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, með til dæmis ákveðnu lágmarkshlutfalli þjóðarinnar á undirskriftarlista. Þetta er þó vandmeðfarið og má ekki leiða til þess að hér sé þjóðaratkvæðagreiðsla í hverjum mánuði.

• Skilgreina auðlindir og tryggja að nýting og arður af þeim verði íslensku þjóðfélagi til góða og skapi atvinnu.

• Trúfrelsi skal ríkja á Íslandi. Afnema skal 62. grein stjórnarskrárinnar og leggja enn meiri áherslu á trúfrelsi á Íslandi. Öll trúarbrögð skulu standa jafnt frammi fyrir ríkisvaldinu. Þetta tengist mjög vel inn í mannréttindakaflann.

• Endurskoðun stjórnarskrárinnar mætti verða að föstum viðburði í framtíðinni, með nokkurra ára millibili. Stjórnarskrárnefndir skipaðar alþingismönnum hafa verið starfandi á hverju löggjafarþingi í mörg ár. Ég er þó hlynntur því að ákveðið úrtak þjóðarinnar fái að sitja í þannig nefnd með reglulegu millibili í framtíðinni.

Lesandi góður, eftir þennan lestur ættir þú að átta þig á því hvar ég stend og hvað ég vil endurskoða í stjórnarskránni. Ég vona að þú komist á kjörstað og nýtir atkvæðisrétt þinn. Stjórnlagaþing er sérstakur viðburður í íslenskri sögu. Um leið og ég óska eftir stuðningi þínum hvet ég þig til þess að láta ekki þitt eftir liggja og greiða atkvæði.

Kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson
Frambjóðandi 2446


Stjórnsýsla vs. stjórnmál

Kæru lesendur

Stjórnsýslan og stjórnmálin þurfa að vera aðgreind á vissan hátt. Auðvitað þurfa þessi öfl að vinna mjög náið saman, en þó að vera sitthvort aðgreindur hluturinn. Stjórnmálin eru stefnumarkandi en stjórnsýslan er stefnu-framkvæmandi, framkvæmir vilja stjórnvalda hverju sinni. Jafn mikilvægt er að halda þessari tvískiptingu eins og að halda dómsvaldi aðgreindu frá löggjafar -og framkvæmdavaldi.
Eins og þessi tvískipting er mikilvæg er lítið sem ekkert um hana í núverandi stjórnarskrá Íslands. Ákvæði sem myndi skerpa á þessari tvískiptingu væri meira en velkomið af minni hálfu.

Hættan sem getur komið upp varðandi þessa tvískiptingu er hreinlega það sem getur kallast spilling. Hætta er á því að ráðnir séu inn í stjórnsýsluna pólitískir starfsmenn og upp getur þá komið misjafn vandi. Þeir njóta ekki trausts meðal samstarfsmanna sem ef til vill eru ekki pólitískir. Einnig getur komið upp sú staða að pólitískur starfsmaður stjórnsýslunnar vilji ekki, tefji eða breyti þeirri stefnu sem hann á að framkvæma samkvæmt vilja stjórnmálamanna, einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki sama flokksskírteinið og hann í vasanum. Starfsmenn stjórnsýslunnar eru oft pólitískt ráðnir af þeim flokkum sem eru í ríkisstjórn þá þegar. Svo hættir kannski sú ríkisstjórn en eftir sitja allir þeir flokkshollu starfsmenn innan stjórnsýslunnar sem fráfarandi ríkisstjórn réð til starfa. Í gegnum þá starfsmenn hefur þessi ríkisstjórn ákveðin völd.

Þess vegna kemur manni ekki á óvart að heyra að framsóknarmenn velli nánast út úr hverjum einasta kústaskáp ráðuneytanna sem opnaður er enn þann dag í dag síðan úr sterkri valdatíð flokksins.
Þekkt er auðvitað að starfsmenn stjórnsýslunnar séu pólitískt ráðnir og það kerfi sé viðurkennt, en það er í allt öðru stjórnskipunarfyrirkomulagi sem er t.d. forsetaræðið í USA. Þegar nýr forseti er kosinn þar, skiptir hann hreinlega út mest allri stjórnsýslunni fyrir þá er hafa stutt hann og hjálpað honum í kosningunum. Þeir fá starf í verðlaun. En við Íslendingar búum í þingræðisríki þar sem svona samtvinning stjórnmála og stjórnsýslu má ekki viðgangast og er hreinlega stórhættuleg.

Eiríkur Tómasson lagaprófessor við Háskóla Íslands tók svo sterklega til orða á dögunum að segja að pólitísk stjórnsýsla á Íslandi í gegnum árin hafi verið stór ástæða fyrir hruninu hér á landi haustið 2008.

Ef mögulegt er að setja ákvæði um þessa tvískiptingu í endurskoðaða stjórnarskrá Íslands mun ég svo sannarlega beita mér fyrir því. Þessi óljósa aðgreining var og hefur verið ekkert nema spilling. Því þarf að breyta.

Kveðja

Jón Pálmar Ragnarsson

Auðkennistala mín í kosningum: 2446


Höfundur

Jón Pálmar Ragnarsson
Jón Pálmar Ragnarsson
Frambjóðandi til komandi Stjórnlagaþings. Kosið verður 27. nóvember næstkomandi. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt frá HÍ og stunda nú mastersnám í opinberri stjórnsýslu með áherslu á alþjóðasamskipti við sama skóla. Ég vil hafa áhrif við mótun nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Núgildandi stjórnarskrá hefur komið mikið við sögu í mínu námi og ég hef lengi haft brennandi áhuga henni og hlutverki hennar. Einnig geng ég með margar hugmyndir að breytingum og betrumbótum á henni í kollinum. ÞESS vegna býð ég mig fram.

Eldri færslur

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband