Leita í fréttum mbl.is

Stjórnsýsla vs. stjórnmál

Kæru lesendur

Stjórnsýslan og stjórnmálin þurfa að vera aðgreind á vissan hátt. Auðvitað þurfa þessi öfl að vinna mjög náið saman, en þó að vera sitthvort aðgreindur hluturinn. Stjórnmálin eru stefnumarkandi en stjórnsýslan er stefnu-framkvæmandi, framkvæmir vilja stjórnvalda hverju sinni. Jafn mikilvægt er að halda þessari tvískiptingu eins og að halda dómsvaldi aðgreindu frá löggjafar -og framkvæmdavaldi.
Eins og þessi tvískipting er mikilvæg er lítið sem ekkert um hana í núverandi stjórnarskrá Íslands. Ákvæði sem myndi skerpa á þessari tvískiptingu væri meira en velkomið af minni hálfu.

Hættan sem getur komið upp varðandi þessa tvískiptingu er hreinlega það sem getur kallast spilling. Hætta er á því að ráðnir séu inn í stjórnsýsluna pólitískir starfsmenn og upp getur þá komið misjafn vandi. Þeir njóta ekki trausts meðal samstarfsmanna sem ef til vill eru ekki pólitískir. Einnig getur komið upp sú staða að pólitískur starfsmaður stjórnsýslunnar vilji ekki, tefji eða breyti þeirri stefnu sem hann á að framkvæma samkvæmt vilja stjórnmálamanna, einfaldlega vegna þess að hann hefur ekki sama flokksskírteinið og hann í vasanum. Starfsmenn stjórnsýslunnar eru oft pólitískt ráðnir af þeim flokkum sem eru í ríkisstjórn þá þegar. Svo hættir kannski sú ríkisstjórn en eftir sitja allir þeir flokkshollu starfsmenn innan stjórnsýslunnar sem fráfarandi ríkisstjórn réð til starfa. Í gegnum þá starfsmenn hefur þessi ríkisstjórn ákveðin völd.

Þess vegna kemur manni ekki á óvart að heyra að framsóknarmenn velli nánast út úr hverjum einasta kústaskáp ráðuneytanna sem opnaður er enn þann dag í dag síðan úr sterkri valdatíð flokksins.
Þekkt er auðvitað að starfsmenn stjórnsýslunnar séu pólitískt ráðnir og það kerfi sé viðurkennt, en það er í allt öðru stjórnskipunarfyrirkomulagi sem er t.d. forsetaræðið í USA. Þegar nýr forseti er kosinn þar, skiptir hann hreinlega út mest allri stjórnsýslunni fyrir þá er hafa stutt hann og hjálpað honum í kosningunum. Þeir fá starf í verðlaun. En við Íslendingar búum í þingræðisríki þar sem svona samtvinning stjórnmála og stjórnsýslu má ekki viðgangast og er hreinlega stórhættuleg.

Eiríkur Tómasson lagaprófessor við Háskóla Íslands tók svo sterklega til orða á dögunum að segja að pólitísk stjórnsýsla á Íslandi í gegnum árin hafi verið stór ástæða fyrir hruninu hér á landi haustið 2008.

Ef mögulegt er að setja ákvæði um þessa tvískiptingu í endurskoðaða stjórnarskrá Íslands mun ég svo sannarlega beita mér fyrir því. Þessi óljósa aðgreining var og hefur verið ekkert nema spilling. Því þarf að breyta.

Kveðja

Jón Pálmar Ragnarsson

Auðkennistala mín í kosningum: 2446


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Pálmar Ragnarsson
Jón Pálmar Ragnarsson
Frambjóðandi til komandi Stjórnlagaþings. Kosið verður 27. nóvember næstkomandi. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt frá HÍ og stunda nú mastersnám í opinberri stjórnsýslu með áherslu á alþjóðasamskipti við sama skóla. Ég vil hafa áhrif við mótun nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Núgildandi stjórnarskrá hefur komið mikið við sögu í mínu námi og ég hef lengi haft brennandi áhuga henni og hlutverki hennar. Einnig geng ég með margar hugmyndir að breytingum og betrumbótum á henni í kollinum. ÞESS vegna býð ég mig fram.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband