Leita í fréttum mbl.is

Stjórnlagaþing er á næsta leyti

Kæru lesendur

Síðan hugmyndin um stjórnlagaþing kom upp hef ég sannfærst meira og meira um að mig langi að taka þátt í því. Þetta er einstakt tækifæri fyrir meðal-jón eins og mig (já, ég heiti Jón) til að vera hluti af heild sem getur haft gríðarleg áhrif á breytingar á stjórnarskrá Íslands. Nú er búið að festa í lög hvernig uppbygging stjórnlagaþingsins verður og framboðsfrestur rennur út 18. október.

Hér með tilkynni ég framboð mitt formlega þó ekki hafi ég skilað inn framboði ennþá, meðmælendasöfnun er í gangi eins og er. Ég er ekki í framboði fyrir nein samtök, flokk eða neitt slíkt. Þessi ákvörðun mín um framboð er algjörlega sjálfsprottin vegna löngunnar minnar og ástríðu til að hafa áhrif á hið merka plagg sem stjórnarskráin er.

Svo ég segi aðeins frá sjálfum mér þá heiti ég Jón Pálmar Ragnarsson og er 23 ára gamall. Ég er fæddur í Reykjavík og bjó þar fyrstu ár ævi minnar en flutti svo í sveit, nánar tiltekið í Hrútafjörð þar sem ég svo ólst upp þangað til ég fór í framhaldsskóla og síðar háskóla. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og stunda nú mastersnám í opinberri stjórnsýslu með áherslu á alþjóðasamskipti við sama skóla. Tel ég að menntun mín í stjórnmálafræði hafi gagnast mér mjög mikið við að skilja íslenska stjórnskipun og aðalritið sem snýr að henni er auðvitað stjórnarskráin, sem líta má á sem plagg sem leggur lífsreglurnar fyrir okkur Íslendinga og hvernig samfélagi við viljum búa í. Menntunin hefur einnig kennt mér að nota gagnrýna hugsun við nánast allt sem maður tekur sér fyrir hendur, að vera með gagnrýnisgleraugun gagnvart ríkisvaldinu og vera skeptískur á fjölmiðlaumfjöllun en í leiðinni að sýna sanngirni. Það sem ég vil gera er að nota mína reynslu og getu til þess að vinna að breytingum á stjórnarskrá Íslands. Ef ég mun njóta þeirra forréttinda að veljast inn á stjórnlagaþingið mun ég starfa þar að heilindum fyrir Íslendinga með almannahagsmuni í húfi.

Í núgildandi stjórnarskrá eru mörg atriði og ákvæði sem að mínu mati má ýmist fjarlægja, breyta, bæta eða lagfæra. Svo eru líka atriði sem bæta má við hana. Stjórnarskráin er gömul. Íslendingar fengu hana frá Danakonungi árið 1874 og síðan eru liðin mörg ár. Ekki hafa verið gerðar margar breytingar á henni síðan en þó einhverjar. Til dæmis hefur kjördæmaskipulagi verið breytt og mannréttindakaflanum.
Það sem ég hef mikinn áhuga á eru réttindi einstaklinga, mannréttindin. Frelsi einstaklingsins er mér ofarlega í huga og mín skoðun er sú að það eigi að vera sem mest auðvitað en að sjálfsögðu án þess að skaða aðra. Þó mannréttindakaflinn hafi verið endurskoðaður fyrir nokkrum árum er alltaf hægt að gera betur vegna þróunar í mannréttindamálum, þar sem aðalbaráttan fer fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindi eru mitt sérfræðisvið hvað viðkemur stjórnarskránni. BA ritgerð mín í stjórnmálafræði fjallar í byrjun um sögu mannréttinda en aðalefni ritgerðarinnar eru mannréttindi í Bandaríkjunum. Ritgerðin ber heitið: "Mannréttindi og mannréttindastefna Bandaríkjanna: í orði og á borði" og er aðgengileg fyrir alla til aflestrar hér: http://skemman.is/handle/1946/4748

Skilgreina þarf betur þrískiptingu valdsins í stjórnarskránni og hafa í huga jafnvægi og mótvægi þessara þriggja afla, svokallað "checks and balances".

Kosningakerfinu þarf að breyta og er ég með vissar hugmyndir um hvaða kosningakerfi hentar Íslandi betur en núverandi kerfi.

Endurskoða þarf völd og hlutverk forsetaembættisins í stjórnarskránni.

Kjördæmaskipulagið þarf að taka til endurskoðunar og er það auðvitað mjög skylt kosningakerfinu. Þetta þarf að endurskoðast samtímis með tilliti til vægi atkvæða og að kjósendur get haft sem mest áhrif.

Þetta eru einungis nokkur atriði sem ég hef sett hér fram og listinn er alls ekki tæmandi. Ég mun gefa út stefnuskrá mína á næstu dögum svo kjósendur sem þetta lesa geti séð fyrir hvaða áherslur, breytingar og aðferðir ég stend fyrir því vel upplýstur kjósandi er besti kjósandinn.
Tillögur, athugasemdir tengdar umræðunni eru ávallt velkomnar í athugasemdakerfið eða í tölvupóst til mín á: jonpalmar(hjá)gmail.com.

Takk fyrir lesturinn og góða helgi.

Kveðja
Jón Pálmar Ragnarsson


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gangi þér vel í kosningabaráttunni, hef fulla trú á þér í þetta.

Auðunn Ingi (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 14:17

2 identicon

þetta er flott, mér líst bara vel á þetta þú færð allan minn stuðning

Adam Levý Karlsson (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 15:03

3 identicon

"Það þarf mann eins og þig" Atkvæði víst á Kollsá II minn kæri.

Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 15:20

4 identicon

Líst vel á þetta hjá þér!!

Harpa Atla (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 01:20

5 identicon

Frábært! Hef fulla trú á þér og þú átt allan minn stuðning :)

Silja (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 12:11

6 identicon

Líst vel á þetta Jón Pálmar, þú átt atk. víst hjá okkur hjónum líka.  Gangi þér vel

Eygló (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 13:27

7 identicon

Þakka ykkur kærlega fyrir stuðninginn. Hann er ómetanlegur :)

Jón Pálmar Ragnarsson (IP-tala skráð) 3.10.2010 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Pálmar Ragnarsson
Jón Pálmar Ragnarsson
Frambjóðandi til komandi Stjórnlagaþings. Kosið verður 27. nóvember næstkomandi. Ég er stjórnmálafræðingur að mennt frá HÍ og stunda nú mastersnám í opinberri stjórnsýslu með áherslu á alþjóðasamskipti við sama skóla. Ég vil hafa áhrif við mótun nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland. Núgildandi stjórnarskrá hefur komið mikið við sögu í mínu námi og ég hef lengi haft brennandi áhuga henni og hlutverki hennar. Einnig geng ég með margar hugmyndir að breytingum og betrumbótum á henni í kollinum. ÞESS vegna býð ég mig fram.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband